Færsluflokkur: Bloggar

Slagorðapresta? Nei, takk

Með reglulegu millibili fær Hjörtur Magni fríkirkjuprestur að skína í fjölmiðlum. Það liggur við að hann hafi tekið við af félaga sínum í Krossinum sem aðalfordæmandi þjóðkirkjupresta, en lengi hefur það þótt "menningarlegt" að gera dálítið grín að þjóðkirkjuprestum. Svo skemmtilega vill nefnilega til að þeir svara yfirleitt ekki fyrir sig. Það sópar að félaga Gunnari þegar hann fordæmir þjóðkirkjupresta fyrir of mikið frjálslyndi og flangs í ritningarlegum efnum en Hjörtur brosir uppfyrir bæði kollvik og fordæmir þá fyrir bókstafshyggju og baráttu gegn einhvers konar "trúarlegri gerjun" sem hann telur að eigi sér stað í landinu. Hvað hann á við með því er ekki gott að segja, nema heilun með álfum sé þar á meðal, eða nýjasta útgáfan af fjölmeningarlegum Síonsguði sem Hjörtur segist sjálfur hafa kynnst þar austur í Jerúsalem. Hjörtur hefur nefnilega komist að því að guðinn hans er ekki kristinn heldur miklu víðsýnni, eins og hann sjálfur, og því eru án efa bæði Kóran og Biblía og aðrar nytsamar ritningar á hans fríða fríkirkjuborði og svo er auðvitað bara frjálst val um stef í boði hússins. Það hefur hins vegar alveg gleymst að uppfæra ljósið í þessu frjálsa húsi, því sjö arma musterisstikur bera því vitni að sennilega er Messías ókominn og Kristur ekki fæddur í Fríkirkjunni.

Með kryddi úr slagorðahyggju og óraplágu nútímans fullvissar hinn ágæti fjölgyðisprestur að hann sjálfur sé boðberi hins eina rétta frelsis. Það var og! Hin "fjálsa grasrótarkristni" er fundin og fagnaðarrík komin stundin, gæti hljómað á flettiskilti Fríkirkjunnar, eða: Fagnið með fjölmörgum guðum. Tilboð vikunnar: Guð Abrahams. Þannig vinnur markaðsguðfræði nútímans; hún hefur fundið sannleikann með stóru S-i. Sem betur fer er almúginn á Íslandi ekki með amerísk eyru og því hristum við af okkur svona óværu og nennum ekki að hlusta.

Þá er nú betra að hafa þjóðkirkju þar sem fullt er af þunglamalegum prestum sem þurfa ekki sýknt og heilagt að skara eld að eigin trúarágæti. Þeir gefa á garðann það Orð sem þeim var afhent með hempunni og þegar einhver deyr hjálpa þeir missundruðum fjölskyldum að mætast yfir moldum hins látna. Guðfræði þeirra er bæði frjálslynd og forn án þess að það trufli okkur og samfélagsþjónusta þeirra um land allt er mikilvæg. Sá er jú munur á þjóðkirkju og fríkirkjum að innan þjóðkirkju á að rúmast mjög breið guðfræði og hófsamur kristindómur, á meðan smákirkjur komast upp með að boða bara sína ríkislínu, sinn Sannleika sem auðvitað er frjálsari og betri en í hinni kirkjunni. Hvergi er eins alið á mýtunni um "okkur" og "hina" og í markaðskirkjum sem rembast við að lokka lýðinn. Þegar lögmál samkeppninnar hefur læðst undir hempuna, þá skulum við biðja guð að hjálpa okkur því þá fyrst verður fjandinn laus!

Höfundur er leikmaður á kirkjuþingi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband